Lífið á Framnesveginum var gott.
Íbúðin var tæplega 60 fermetrar með einu svefnherbergi en hún nýttist vel. Við vorum dugleg að elda sjálf og fórum um helgar til foreldra okkar til að borða. Oftast upp á Laugarásveg á laugardegi og Dvergholt á sunnudegi. Einstaka sinnum gerðum við okkur dagamun og fórum á Hróa Hött sem var rétt handan við hornið.
Þetta var virkilega fallegt heimili.
Eftir að Oddur fæddist þá varð lífið flóknara. Ég var í geymslunni hinum megin við ganginn að læra og þú sinntir Oddi í íbúðinni á meðan. Ég heyrði flest samskipti yfir í geymsluna og gat meira að segja hlaupið yfir og svarað símanum. Oddur var ekki hrifinn að sofa í barnarúminu sínu og vildi miklu frekar sofa uppí hjá okkur. Við sváfum því þrjú í hjónarúminu í tæp þrjú ár.