Fljótlega eftir að við fluttum á Grenimel fór ég að vinna hjá Omega Farma og þú stefndir að því að klára BA prófið jafnhliða vinnu. Lísa var fyrst hjá Sigrúnu dagmömmu og Oddur á leikskólanum Vesturborg.

Okkur leið vel.

GrenimelurÍbúðin var hæfilega stór og fínir nágrannar. Laufey og Kjartan bjuggu á fyrstu hæðinni og dóttir þeirra, Unnur, var besti vinur Odds á þessum tíma. Óli Stolz bjó í kjallaranum – fínn strákur sem bar ekki mikið á nema hann spilaði á kontrabassa einstöku sinnum um helgar. Það lýsti frábærum dugnaði þegar þú kláraðir BA-prófið 1997. Þú áttir eftir nokkur námskeið auk BA-ritgerðarinnar – og allt gert með tvö börn og oftast vinnu. Þegar Oddur var sex ára byrjaði hann í Melaskóla. Það var stór dagur fyrir okkur foreldrana: fyrsta barnið byrjað í skóla. Lísa fór á Ægisborg og fannst gaman í leikskólanum. Á þessum tíma vorum við mikið að hugsa um að stofna okkar eigið fyrirtæki. Okkur langaði að vinna sjálfstætt eins og sjálfsagt marga. Við höfðum meira að segja ákveðið nafn á fyrirtækið áður en við vissum hvað það ætti að gera.

Dextra var okkar fyrirtæki.

Nafnið var hugsað þannig að það gengi bæði á Íslandi og erlendis. Við vorum með fjölmargar hugmyndir og sendum bæði bréf og föx út um allan heim með okkar viðskiptahugmyndir. Við skrifuðum til Victoria’s Secret og Next með hugmyndir um að opna verslanir á Íslandi. Við skrifuðum til Braun til að fá umboð fyrir hitamæla og við skrifuðum til Taco Bell með þá hugmynd að opna veitingastað á Íslandi. Þetta eru aðeins örfá dæmi um þann fjölda hugmynda sem við höfðum. Við fengum ekki mikil viðbrögð. Sumir óskuðu eftir frekari upplýsingum en engin af þessum hugmyndum náði fullum þroska. Áður en við gerðum eitthvað frekar í þessum málum vorum við flutt til Englands.