Í byrjun árs 1998 vorum við sammála um að breyta til: stofna eigið fyrirtæki, skipta um vinnu eða jafnvel flytja til útlanda. Ég sá auglýsingu í tímaritinu Script um stöður í skráningu lyfja hjá Pfizer í Sandwich á Englandi. Mér fannst ég hafa engu að tapa og ákvað að senda inn umsókn. Vissi í raun ekkert hvað ég var að sækja um. Þú studdir þetta 100%.
Mér var boðið til Englands í viðtal í mars 1998. Viðtalið gekk vel og í lok dags fór Graham Higson, yfirmaður skráningardeildarinnar, með mér út að borða og sagði að ég myndi fá atvinnutilboð frá þeim. Bréfið kom í pósti stuttu seinna og eins og vanalega í okkar sambandi þá ákváðum við að stökkva á þetta. Þetta var stór ákvörðun og ég hreinlega skil ekki hvers vegna við gerðum þetta. Við sögðum upp í vinnunni – ég hjá Omega Farma og þú hjá VSÓ, seldum Grenimelinn, pökkuðum öllu í gám og flugum til Englands. Lísa var með hlaupabólu rétt fyrir flutningana og var ekki búin að jafna sig alveg í fluginu. En allt gekk að óskum.
Þegar við lentum á Heathrow fórum við á Avis bílaleiguna og fengum rauðan Renault sem átti eftir að vera bílinn okkar á Englandi fyrstu mánuðina. Við vorum búin að leigja hús í Blean. Þetta var um sumar þannig að við höfðum smá tíma til að koma okkur fyrir áður en börnin færu í skóla um haustið.