Lífið í Blean var gott.
Leiguhúsið í Westfield var ekki það besta sem við höfum búið í, illa einangrað og virtist hafa verið byggt af vanefnum en það var samt eitthvað vinalegt við það. Við vöndumst því aldrei að hafa teppi á baðherbergjunum – sérstaklega ekki í leiguhúsnæði. Það hafði ýmislegt farið í þessi teppi áður en við fluttum inn.
Klósettið á jarðhæðinni var laust og við hringdum í leigumiðlunina og þeir sendu mann að laga það. Það var áhugaverð reynsla. Þessi ágæti iðnaðarmaður hafði sjálfsagt tekið of mikið af eiturlyfjum um ævina og við öllu sem við sögðum við hann svaraði hann “ókíkókí”. Viðgerðin var einkennileg: hann hellti steypu á gólfið og setti klósettið fyrst ofan á steypuna og síðan skítuga teppið ofan á það. Við þurftum að finna okkur eitthvað annað húsnæði sem fyrst.
Í næstu götu var verið að byggja nýtt hús. Við gengum reglulega þarna framhjá og ákváðum loks að gera kauptilboð í húsið. Þetta var mikil breyting frá leiguhúsinu í Westfield. Pabbi þinn kom frá Íslandi og hjálpaði okkur enn og aftur að standsetja húsið. Hann lagði parket á neðri hæðina og við tvö lögðum saman gólfflísarnar á litla baðherbergið niðri. Það er eina skiptið sem ég hef lagt flísar.
Ekkert teppi á okkar baðherbergjum!
Húsið var í sama hverfi og því þurftu börnin ekki að skipta um skóla. Hverfisbúðin þar sem við keyptum mjólk, brauð og blöðin var rétt handan við hornið. Blean var lítill vinalegur bær þar sem gott var að vera með ung börn.