Vorið 2000 ákváðum við að flytja aftur til Íslands. Það voru einkum tvær ástæður fyrir þessum flutningum. Okkur fannst mikilvægt fyrir börnin að fara í íslenskan skóla og síðan söknuðum við fjölskyldu og vina á Íslandi. Mér hafði jafnframt verið boðin vinna hjá Delta sem þá var stærsta íslenska lyfjafyrirtækið.
Við pökkuðum saman í Chapel Lane í júní 2000 og héldum til Íslands. Við leigðum okkur hús í Hafnarfirði. Kosturinn við húsið var að það var nálægt vinnustöðunum, mínum í Hafnarfirði og þínum í Garðabæ. Húsið var sagt í spænskum stíl – ískaldar flísar á gólfum og húsið var byggt á mörgum pöllum. Börnin fóru í Hvaleyrarskóla. Oddur kom heim eftir skóla og var einn seinni hluta eftirmiðdagsins og Lísa var í heilsdagsskólanum. Þetta var ekki alveg lífið eins og ég hafði ímyndað mér það en við vissum ekki alveg hvað við vildum gera næst.
Í október 2000 fékk ég símtal seint um kvöld frá Graham Higson, fyrrverandi yfirmanni mínum hjá Pfizer. Hann vildi ræða við mig hvort ég hefði áhuga á að koma til Bandaríkjanna að vinna hjá Pfizer. Ég hafði verið hjá Delta í 4 mánuði þannig að þetta var ansi snemmt að skipta um vinnu en þetta var ótrúlegt tækifæri. Við hugsuðum okkur um í smá tíma og enn og aftur slógum við til. Nú var ferðinni heitið til Connecticut.