Ég flutti fyrst út einn rétt eftir áramótin. Fékk í byrjun litla íbúð í bænum Groton. Þú hafðir komið með að kíkja á aðstæður og okkur leist vel á. Fyrstu mánuðina bjuggum við hvort í sínu landinu, ég í Groton og þú í Hafnarfirði. Við ákváðum að leyfa krökkunum að klára skólaárið á Íslandi. Ég fékk aðstoð frá Pfizer að finna hús og þarna kynntist ég Janet McKinsey, fasteignasalanum okkar í Connecticut. Hún var óþreytandi að sýna mér mismunandi hús í kringum Lyme, Old Lyme og East Lyme.

Ég skoðaði sjálfsagt ein 15 hús og fann þrjú sem mér fannst gætu passað. Þú komst síðan í helgarferð frá Íslandi og við völdum húsið á Cardinal Road. Það var mikið að gera þennan vetur: þú enn að vinna hjá Pharmaco í Garðabæ, Oddur og Lísa í Hvaleyrarskóla og ég að vinna í Bandaríkjunum.

Við hlökkuðum til að sameinast aftur í nýja húsinu okkar.

Þú sást um að pakka húsinu í Hafnarfirði og um vorið komuð þið út. Við fórum í heimsókn í East Lyme skólann og krakkarnir fengu að vera þar einn dag um vorið. Það var meiri vinna að komast inn í bandaríska kerfið en það enska en við höfðum góða aðstoð frá Pfizer. Það þurfti að sækja um trygginganúmer, ganga frá sköttum, fara í bílpróf, finna lækna og tannlækna.  Allt gekk þetta upp.