Við vorum fljót að læra á kerfið í Connecticut. Krökkunum gekk vel í skólanum. Vinnan hjá mér var fín og allt var komið í fastari skorður þegar mamma mín kom aftur í heimsókn 2003 til að halda upp á sjötugsafmælið sitt hjá okkur.
Einn morguninn eftir að ég var farinn í vinnuna og krakkarnir í skólann misstir þú af þrepi þegar þú varst að ganga niður stigann og féllst niður allar tröppurnar. Þú gast ekki staðið upp og hringdir í mig í vinnuna og ég kom í hvelli.
Við hringdum á sjúkrabíl. Sjúkrabíll, lögreglubíll og slökkvuliðsbíll voru komnir til til okkar mjög fljótt. Þér var komið fyrir á börum og farið á sjúkrahúsið í New London. Ég keyrði á eftir bílnum. Mér brá hrikalega en hafði lært af reynslunni af tábrotinu. Þú varst skoðuð og ákvörðun tekin um uppskurð strax þennan sama dag.
Yfirlæknirinn á deildinni var á vakt og ætlaði að framkvæma uppskurðinn sjálfur.
Allt gekk þetta vel.
Þegar þú útskrifaðist rúmum sólarhring seinna fengum við reikning – ekki ósvipað og á hóteli þar sem hver einasta sprauta og tafla var sundurliðuð og nóttin ein og sér kostaði meira en 5 stjörnu hótel í New York. Eftir sjúkraþjálfun og heimsókn til Íslands á hækjum varðstu hægt og rólega betri í fætinum. Þetta tók langan tíma. En við líka lærðum töluvert á sjúkratryggingar í Bandaríkjunum.