Við vorum ekki búin að vera kærustupar í marga mánuði þegar ég fór að tala um trúlofun. Fólki í kringum okkur fannst þetta ansi snemmt en ég sá ekki ástæðu til að bíða. Mér fannst trúlofun ekki heldur endilega beinn fyrirboði giftingar heldur staðfesting á að við værum alvöru kærustupar. Opinberun – meira en nokkuð annað.
Við vorum á síðasta ári í MS. Jólin 1987 voru okkar fyrstu jól saman. Við höfðum verið ansi nærri því að hætta saman rétt fyrir jólin. Það hafði verið mikið stress og spenna hjá okkur og ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að haga mér sem kærasti og fannst þú eyða of miklum tíma með vinkonum þínum. Mér fannst að við ættum að eyða öllum okkar frítíma saman. Í nokkra daga töluðum við ekki saman. Ekki eitt orð. En sem betur fer sættumst fyrir aðfangadag.
Við vorum auðvitað krakkar og áttum eftir að læra hvort á annað. Við áttum yndisleg jól og í janúar byrjaði ég að tala um trúlofun. Ég var viss – þú varst sú eina rétta. Við ákváðum að trúlofa okkur í lok janúar. Fórum saman í Gull og silfur á Laugavegi að kaupa hringa. Ég vissi ekki einu sinni á þeim tíma að það var siður að skrifa eitthvað inn í hringana. Við sögðum engum frá neinu fyrr en við vorum búin að setja upp hringana. Þetta var hvorki stór né viðamikil athöfn. Við settum formlega upp hringana í herberginu mínu á Laugarásveginum 29. janúar 1988 og fórum síðan saman út að borða á La Primavera sem þá var í Húsi verslunarinnar. Yndislegur dagur og mikið var ég montinn að sýna fólki hringinn.
Þetta var okkar stund.