Haustið 2003 skipti ég um vinnu. Hætti hjá Pfizer og fór til Pharmaco sem síðar hét Actavis.
Mikil breyting.
Ég var eini starfsmaðurinn í Bandaríkjunum með skrifstofu í Hartford og allt í einu fór ég að ferðast meira til Íslands. Oddur var í middle school á leið í high school og Lísa að byrja í middle school. Við fórum að ræða um hvað best væri að gera í framtíðinni. Við höfðum keypt íslenskar námsbækur fyrir krakkana en þær voru aldrei opnaðar.
Við vildum endilega að krakkarnir lærðu íslenskuna vel og yrðu Íslendingar þó að okkur væri sama hvar þau myndu búa í framtíðinni. Við fórum því að undirbúa flutning til Íslands. Ekkert lá á en gott væri ef Oddur kæmist í 10. bekk á Íslandi og síðan gæti hann farið í menntaskóla.
Lísa var á viðkvæmum aldri. Hún hafði í raun aldrei áhuga á að flytja frá Bandaríkjunum. Við keyptum húsið í Stigahlíð án þess að hafa séð það – en pöbbum okkar hafði litist vel á húsið og það var ekki eftir neinu að bíða. Við fluttum til Íslands 2005, orðin vel sjóuð í flutningum. Ekkert kom okkur lengur á óvart. Það gekk vel að selja húsið á Cardinal Road. Þó að fjölskyldan flytti til Íslands, eyddi ég mjög miklum tíma í Bandaríkjunum næstu árin vegna vinnu.