Þegar Oddur var nokkra mánaða fórum við að huga að dagvistun fyrir hann. Þú hringdir til borgarinnar og fékkst lista yfir dagmömmur. Þú hittir fjölmargar dagmömmur en það var fullt og biðlisti hjá flestum.
Okkur leist langbest á Sigrúnu dagmömmu á Meistaravöllum, númer tvö var dagmamma sem bjó við Eiðsgranda. Eina dagmamman sem hafði laust pláss var í Hlíðunum. Þú hafðir talað við hana þegar hún var í fríi og með engin börn og okkur leist sæmilega á hana. Við ákváðum því að prófa hana.
Við fórum saman með Odd í fyrsta skiptið. Þegar við mættum þá var húsið fullt út úr dyrum af börnum og blessuð dagmamman vissi ekki einu sinni nöfnin á þeim öllum. Það voru börn út um allt og íbúðin á hvolfi — minnti svolítið á kvikmyndina 101 Dalmatíuhundur. Síðan settumst við niður til að gefa henni upplýsingar um Odd og fyrsta spurningin hennar var hvort ekki væri í lagi að gefa barninu gingseng. Við þessa spurningu hætti ég að sjá mikla framtíð í þessum samskiptum. Við skildum hann samt eftir og keyrðum um bæinn og biðum eftir að geta náð í hann aftur.
Nú voru góð ráð dýr.
Ég tók að mér að hringja í Sigrúnu á Meistaravöllum og sjá hvort það væri minnsti möguleiki að komast að hjá henni. Ég talaði við hana í rúmlega hálftíma og í lokin samþykkti hún að bæta Oddi við. Hún sagði mér seinna að það hefði ráðið nokkru að ég hét sama nafni og sonur hennar, Sigurður Ólafsson.
Oddur byrjaði svo hjá Sigrúnu stuttu seinna. Hann lét öllum illum látum í byrjun, grét frá því hann mætti á morgnanna þangað til hann var sóttur á kvöldin. Eftir rúma viku af þessum ósköpum sagði Sigrún okkur að hún hreinlega gæti ekki haft barnið ef hann hætti þessu ekki. Oddur skildi stöðuna og næsta dag varð hann sáttur og hætti að gráta. Við vorum því með bæði börnin hjá Sigrúnu og líkaði báðum vel hjá henni.