Í lok árs 2009 var enn komin að tímamótum. Hvað langaði okkur að gera næst?  Okkur var boðið í jólaboðið hjá Actavis í Bandaríkjunum í byrjun desember og flugum saman til Boston af því tilefni.

Við hringdum í Janet fasteignasala í East Lyme og báðum hana að sýna okkur nokkur hús í gamla bænum okkar. Eftir fjölmargar heimsóknir stóð eitt hús upp úr – nýbyggt hús við Darrows Ridge Road í East Lyme.  Það var ekki alveg tilbúið þar sem byggingaraðilinn hafði misst það til banka en við vorum hrifnust af því. Við fórum svo í veisluna hjá Actavis en þegar við komum aftur til Íslands ákváðum við að gera tilboð í húsið með það fyrir augun að flytja aftur til Bandaríkjanna vorið 2010. Við skiptumst á nokkrum tilboðum og 23. desember 2009 höfðum við samþykkt kauptilboð í höndunum. Nú var komið að því að segja börnunum frá næstu flutningum. Við ákváðum að gera það á aðfangadagskvöld – eftir að búið var að opna pakkana.

Við sátum öll í stofunni og sögðum krökkunum að það væri ein gjöf sem væri eftir að opna – við ætluðum að flytja aftur til East Lyme.

Oddur tók þessu með mikilli ró. Sagðist líklega vilja vera áfram á Íslandi og fara í háskóla eftir stúdentsprófið. Lísa sýndi mun meiri tilfinningar. Við höfðum aldrei séð hana jafn ánægða. Það var líklega ekkert sem hún hefði frekar óskað sér. Við höfðum leyst hana úr prísundinni á Íslandi. Viðbrögðin hjá fjölskyldunni voru eins og vænta mátti – þeim fannst leiðinlegt að sjá á eftir okkur aftur til Bandaríkjanna en skildu okkur jafnframt mjög vel.