Veturinn 1993 ákváðum við að halda utan og ég færi í framhaldsnám í lyfjafræði. Við vorum ákveðin í að fara til Bandaríkjanna og skoðuðum ýmsa möguleika. Á endanum sótti ég aðeins um tvo skóla: University of Mississippi og University of Minnesota. Tvo ólíkari skóla er ekki hægt að velja. Mississippi er í suðurríkjunum með hita og raka sem því fylgir og í Minnesota er vetur í 9 mánuði á ári með snjó og frosti. Ég var samþykktur í klínískt doktorsnám í báðum skólanum og valdi að fara norður til Minnesota.

Ég flutti til Bandaríkjanna á undan þér – Oddur var þriggja ára í leikskóla og við ákváðum að þið mynduð koma þegar ég hefði fundið húsnæði og skólinn væri byrjaður. Ég var ekki vanur að ferðast á þessum tíma en komst til Minneapolis og fékk að gista þar hjá íslenskri fjölskyldu sem var þar í doktorsnámi, Sólveigu og Jóni Jóhannesi. Sólveig var mjög hjálpleg og keyrði mig um borgina til að sýna mér leiguhúsnæði. Ég fann fljótlega íbúð og þá var ekkert að vanbúnaði að hefja námið.

Þegar ég mætti í skólann fyrsta daginn þá hafði komið upp vandamál.  Lyfjafræðingafélagið í Minnesota vildi ekki samþykkja lyfjafræðiprófið mitt frá Háskóla Íslands sem fullgilt próf til að vinna sem lyfjafræðingur í Minnesotafylki nema að ég bætti við nokkrum kúrsum. Til að mynda fannst þeim vanta kúrs í sálfræði, bandarískri sögu og bandarískri lyfjalögfræði. Það var nauðsynlegt fyrir þær rannsóknir sem ég var að fara í að hafa fullgild réttindi og því reyndi ég af öllum mætti að semja við skólann og félagið.

Einhverjar kröfur fékk ég felldar niður en niðurstaðan var sú að ég þyrfti að taka minnst sex mánuði af námskeiðum áður en ég hæfi doktorsnámið. Þeir styrkir sem ég hafði fengið voru eingöngu til framhaldsnáms og því gat ég hreinlega ekki tekið þetta aukaár og fór því aftur til Íslands eftir rúmar tvær vikur í Bandaríkjunum. Þetta var lærdómsríkt fyrir okkur.  Auðvitað hefði ævi okkar orðið allt önnur ef ég hefði lokið prófi frá Minnesota en ekki farið að vinna í lyfjaiðnaðinum. En ég myndi engu vilja breyta.