Í byrjun árs 1989 fórum við að tala um að kaupa okkur íbúð. Við vildum fara að búa saman. Það var í lagi að vera á Laugarásveginum en þetta var orðinn ansi langur tími. Við áttum smá sparnað en ekki nóg fyrir útborgun í íbúð. Foreldrar okkar beggja voru tilbúinir að hjálpa. Pabbi minn byrjaði auðvitað að leita sjálfur og fann litla en fallega íbúð á Framnesvegi sem lífeyrissjóður leigubílstjóra hafði tekið upp í skuld. Það voru hagstæð lán áhvílandi á íbúðinni og við gátum fengið hana með rúmlega tæplega tveggja milljón króna útborgun. Pabbi var tilbúinn að lána okkur verulegan hluta af útborguninni og pabbi þinn réðst í það að hjálpa okkur að endurnýja og gera upp.

Fyrst var öll íbúðin máluð í pastellitum – stofan og eldhúsið bleik og blá og svefnherbergið var laxableikt. Síðan var geymslan á móti gerð að skrifstofu og þar hafði ég afdrep til að læra. Veggurinn milli stofunnar og eldhússins var endurbyggður, Ikea fataskápur var settur í svefnherbergið og parket á gólfið. Þetta var frábær staður þar sem við bjuggum í 5 ár.

Nágrannarnir voru svolítið sérstakir. Halldór Ólason rafvirki hafði aldrei fengið rafmagnið í íbúðinni samþykkt og þurftum við að minna hann margsinnis á að klára það verk því að við greiddum fyrir rafmagnið samkvæmt byggingartaxta. Halldór var mikið góðmenni en drykkfelldur.  Hann var gamaldags túramaður og þegar hann datt í það var hann drukkinn í nokkra daga í einu. Þá bankaði hann upp á hjá okkur til að panta „góðan leigubíl“ því að Dilla konan hans mátti ekki vita að hann væri að drekka!

Næsti nágranni var Jón Páll Sigmarsson og fyrir ofan hann bjó Hjalti Úrsus. Beint fyrir ofan okkur bjó Þorsteinn leigubílstjóri. Hann var ágætis maður en datt stundum í það og dró með sér skrítið lið heim.