Ég hafði séð þig nokkrum sinnum á göngunum í MS. Þú varst vinkona Brynhildar og í A-bekknum en ég vissi lítið annað um þig. Framhaldsskólakennarar höfðu boðað verkfall mánudaginn 16. mars 1987 og það var boðað partý heima hjá mér á Laugarásveginum á föstudaginn fyrir boðað verkfall. Fullt af fólki í kringum stjórn nemendafélagsins var boðið. Sjálfsagt meira en 40 manns. Brynhildur mætti með tvær vinkonur – Sillu og þig. Ég man enn eftir þegar við sátum inn í stofu og töluðum saman í fyrsta sinn.
Ég varð strax hrifinn af þér.
Við vorum á margan hátt ólík en eftir því sem við kynntumst betur þeim mun líkari virtumst við vera. Verkfallið hófst á mánudeginum og fljótlega í þeirri viku fékk ég heimanúmerið þitt frá Brynhildi og hringdi í þig.
Okkar fyrsta „stefnumót“ var að fara saman á Pítuna í Skipholti og síðan komu margar bíóferðir. Verkfallið stóð í tvær vikur og á þessum tíma náðum við að kynnast vel og nýta verkfallið til fulls. Ég kynnti þig fyrir mömmu og pabbi nokkru áður en ég hitti mömmu þína og pabba. Þú hafðir fengið flensu og legið í rúminu í tvo daga – þannig að ákveðið var að ég kíkti í heimsókn upp í Mosó. Mamma þín og pabbi voru frábær og tóku mér vel. Ég dvaldi ekki lengi í þetta skipti en þetta var mikilvægur áfangi.