Eftir trúlofun byrjaði ég fljótlega að tala um að við yrðum að fara að gifta okkur. Það var ekkert hlé. Þú sagðir aldrei nei og varst ekki neikvæð – en varst ekki tilbúin alveg strax að bóka daginn. En fljótlega eftir að við fluttum inn á Framnesveginum urðum við sammála um að gifta okkur núna.

Við keyrðum uppá Laugarásveg að segja mömmu og pabba og síðan uppí Mosó til foreldra þinna.  Ég held að báðir foreldrar hafi verið svolítið hissa hversu fljót við vorum að ákveða þetta en jafnframt studdu þau okkur heilshugar. Vinir okkar héldu steggja- og gæsapartý. Mitt var öllu fjörugra allavega framan af kvöldi. Ég var keyrður út um allan bæ og skálaði fyrir framtíðinni á mismunandi stöðum. Þetta varð auðvitað til þess að ég var tekinn aftur heim um klukkan 11 um kvöldið því ég var tilbúinn að fara að sofa. Þú áttir rólega kvöldstund með vinkonum þínum og þið sátuð í stofunni á Framnesveginum þegar ég kom draugfullur heim eftir mín ævintýri.

Þetta var ekki stór gifting en frábær.

Við giftum okkur í Lágafellskirkju og séra Birgir Ásgeirsson gaf okkur saman. Veislan var haldin á Hótel Lind þar sem bróðir minn vann sem kokkur. Hann hafði gefið okkur alla vinnu við veisluna – sem var mjög glæsileg. Sigurður Helgason (eldri), forstjóri Flugleiða og mágur mömmu, hélt einu ræðuna. Hann þekkti okkur ekkert og því voru þetta fallegar óskir um framtíðina frekar en formleg ræða.

1989 gifting

Eftir veisluna var farið út að borða á Grillið á Hótel Sögu og síðan heim á Framnesveginn. Seinna fórum við norður í brúðkaupsferð, gistum fyrst á Akureyri og síðan í sumarhúsi Landsvirkjunnar í Aðaldal. Þetta var rétti tíminn fyrir okkur að gifta okkur.  Við vorum fyrst af vinum okkar að ganga í hjónaband og því var ekki um neinn samanburð að ræða.

Við gerðum þetta að OKKAR degi.

1989 brúðkaup

 

1989 SandB4