Eftir giftingu fórum við að tala um að eignast barn. Það var aldrei neinn hægagangur hjá okkur. Við vorum tilbúin. Nokkrir mánuðir liðu en í mars 1990 komu fréttirnar. Ég var í tíma í Háskólanum og þú hafðir boðist til að sækja mig í hádeginu. Þegar ég kom út í bíl beið mín rauð rós í farþegasætinu og þú brosandi út að eyrum.
Við áttum von á barni. Við vorum hrikalega spennt.
Við reyndum að halda þessu leyndu í 12 vikur en það var vonlaust fyrir mig. Ég get ekki þagað yfir svona hlutum. Þú fórst í skoðun til Þórarins heilsugæslulæknis á Seltjarnarnesi sem staðfesti að við ættum von á barni. Ekki var farið í sónar fyrr en eftir 20 vikur og við vildum ekki vita kyn barnsins. Vildum láta þetta koma okkur á óvart. Spáðum í að byrja ekki of snemma að undirbúa komu barnsins ef eitthvað myndi koma fyrir á meðgöngunni. Við fórum á námskeið hjá Heilsugæslunni fyrir nýja foreldra. Þar var farið í gegnum meðgönguna, fæðinguna og fyrsta ár barnsins. Eitt af fáum námskeiðum þar sem ég mætti sjálfviljugur með þér.