Eftir rúmlega 9 mánaða meðgöngu, þennan hefðbundna tíma, vorum við farin að búast við barninu á hverri stundu. Við fórum einu sinni upp á fæðingadeild þegar við héldum að barnið væri að koma en síðan hægðist á öllu. En svo kom að því.
21. nóvember 1990
Það var ekki um það að villast að barnið væri að koma. Við keyrðum upp á Landsspítala og útvíkkun var byrjuð þegar við komum.Við höfðum viljað vera örugg í þetta skipti – ekki þjófstarta aftur. Ég var hræðilega stressaður. Líklega mesta stress sem ég hef upplifað. Þú stóðst þig eins og hetja og varst ótrúlega afslöppuð miðað við aðstæður á meðan hjartað í mér sló 150 slög á mínútu gegnum alla fæðinguna.
Það þurfti að nota sogklukku til að toga barnið síðasta spölinn. Legvatnið var örlítið litað við fæðinguna og til öryggis var hann tekinn upp á vökudeild til eftirlits. Ég fór með og þegar þeir lokuðu rúminu hjá honum þá hrökk hann við og hjúkrunarfræðingurinn sagðist eiginlega aldrei fá svona stór og vel þroskuð börn í heimsókn. Ég fór síðan heim í sturtu og síðan beint í skólann. Ég drakk mikið kaffi þær fjórar klukkustundir sem kennslan fór fram og síðan fór ég upp á fæðingadeild aftur.
Oddur hafði verið útskrifaður af vökudeildinni og kominn með hinum börnunum. Þið fóruð svo heim fjórum dögum seinna. Aftur var ég stressaður – núna við það eitt að keyra þetta nýfædda barn í bílstólnum sínum. En allt gekk vel.