Eftir útskrift úr MS og útskriftarferð til Ibiza bjuggum við á Laugarásveginum í gamla herberginu mínu. Þetta gekk ótrúlega vel. Þú ákvaðst að vinna hjá útvarpinu næsta vetur og ég byrjaði í lyfjafræði í Háskólanum.
Við vorum á hvíta Subaru Justy-inum sem leit út fyrir að vera kiðfættur. Afturdekkin voru svo skökk að hann var stórhættulegur í hálku. Það gekk stundum erfiðlega að vera á einum bíl. Því var ákveðið að þú myndir kaupa bíl til að komast í vinnuna og annað sem þú gerðir meðan ég var í skólanum. Pabbi minn tók ekki í mál að kaupa gamla druslu og því endaðir þú á að kaupa glænýjan rauðan Skoda.
Rauði Skodinn stóð sig ágætlega, sérstaklega þegar veðrið var gott. Hann var ekki jafn góður í frosti og kulda. Þá var ekki hægt að opna dyrnar og þegar það tókst að lokum þá var ekki hægt að loka hurðinni, sama hversu oft var skellt. Þú þurftir stundum að halda við hurðina hálfa leið upp í Efstaleiti eða þangað til Skodinn var orðinn nógu heitur að hægt var að loka henni. Skodinn var síðar seldur fyrir 55 fermetra af Kars-parketi á fyrstu íbúðina okkar á Framnesveginum. Ég minnist hans ekki sem besta bílsins okkar – en hann var eftirminnilegur og mikilvægur á fyrstu árum okkar sambands.